ÍR - Dalvík/Reynir
Leikur tveggja hálfleika
Eftir að hafa tapað fyrsta leik sumarsins gegn Leiknismönnum og keppt þrjá útileiki í röð var loksins komið að heimaleik. Að sjálfsögðu var líka leikurinn spilaður á grasinu okkar fagra. Dalvíkingar fóru auðvitað upp með okkur í fyrra í Lengjudeildina. Þeir hafa reynst okkur mjög erfiðir í gegnum tíðina að spila við.
Það var jákvæður andi í Breiðholtinu. Fyrstu leikur á grasinu okkar fagra í yfir þúsund daga og fínasta mæting. Leikurinn byrjaði fremur rólega. Við kannski aðeins að venjast grasinu og þeir líka þá. En það dró til tíðinda um miðjan fyrri hálfleik þegar Kristján Atli átti ruglaða sendingu upp völlinn á Ágúst Unnar. Gú tók þetta glæsilega hlaup úr djúpinu, í svæði sem var búið að mynda fyrir hann í vörn Dalvíkur. Hann fær þennan glæsilega bolta í gegn frá Kristjáni og klárar með glæsibrag. Það sem var samt eiginlega fallegast við þetta mark var fagnið hans. Hann tekur létt Jude Bellingham fagn í átt að brekkunni sem trylltist gjörsamlega eftir þetta.
Eftir að hafa komist yfir var samt allt með kyrrum kjörum. Við keyrðum ekkert á þá og þeir lágu frekar aftarlega þrátt fyrir að vera einu marki undir. Það var mikið jafnræði í þessu eins og hafði verið fyrir markið. Þegar fyrri hálfleikurinn var að klárast gerist einn leikmaður Dalvíkur sig sekan um að fá sitt annað gula spjald og þar með rautt. Við því komnir í draumaland fyrir hálfleik. Manni fleiri og marki yfir þegar flautað var til hálfleiks.
Seinni hálfleikurinn var hins vegar allt önnur saga. Við komum mjög rólegir eitthvað stemmdir út í seinni hálfleikinn. Leikurinn gerðist meira og minna á miðjum vellinum þar sem Óliver og McAusland sentu mikið á milli sín. Dalvíkingar gerðu vel með 10 á móti 11. Þeir féllu bara aftar á völlinn og voru þéttir sem gerði okkur erfitt fyrir.
Þegar ekkert svo mikið var búið af seinni hálfleiknum var Abdeen Abdul sloppinn einn í gegn skyndilega á móti Villa í markinu og hann kláraði glæsilega. 1-1 var staðan allt í einu orðin þrátt fyrir það hvernig þetta leit út fyrir okkur í hálfleik. Kannski eitthvað vanmat hjá okkar mönnum komandi út í seinni hálfleikinn en maður bara vonar ekki.
Eftir jöfnunarmarkið sköpuðum við okkur ekkert mikið. Stebbi Páls átti jú skot í slána, McAusland með skalla eftir horn rétt yfir og margar fínar stöður sem við nýttum okkur illa.
En það var hins vegar eitt atvik á okkar sóknarþriðjung sem stóð uppp úr. Eftir barning í teignum var sóknarmaður ÍR greinilega tekinn niður af varnarmanni Dalvíkur og dómari leiksins dæmdi réttilega vítaspyrnu. Bragi tók boltann og var búinn að stilla honum upp við vítapunktinn. Þá skyndilega segir dómari leiksins mönnum að bíða, fer að aðstoðardómaranum og talar við hann í dágóðan tíma. Eftir fundinn tilkynnir hann leikmönnunum það að hann sé búinn að taka þá ákvörðun að taka vítið af okkur ÍR-ingum. Verður að segjast bísna vafasöm ákvörðun þar sem dómari leiksins var í kjörstöðu til að sjá þetta en línudómarinn einhverja 60 metra frá þessu.
Þetta var pirrandi lokaður seinni hálfleikur og lélegt hjá okkar mönnum. En þegar leikurinn var við það að klárast slapp markaskorari Dalvíkur aftur einn í gegn skyndilega. Hann er kominn í nákvæmlega eins stöðu og í markinu. Einn gegn Villa og klárar glæsilega. Nema sekúndu áður en hann kláraði færið og skoraði var línudómarinn búinn að lyfta upp flagginu. Eftir leik fóru menn í útsendinguna á leiknum og stoppuðu akkúrat þegar sendingin kemur. Það var ekki annað hægt að sjá úr útsendingunni að þetta hafi verið röng ákvörðun og markið átti klárlega að standa hjá Dalvík eins og við áttum að fá víti fyrr í leiknum.
Alltaf pirrandi að vinna ekki leik þegar staðan var svona góð í hálfleik og þegar dómarar hafa svona afdrifarík áhrif á leiki.
En það er ekkert annað hægt en að halda áfram og horfa fram veginn. Nóg af leikjum eftir og við lærum af þessu. Fullt af jákvæðum hlutum hægt að taka úr þessu og við höldum áfram.
ÁFRAM ÍR!
Helgi Dagur Halldórsson tók þessar myndir




